Ársskýrsla 2022

Bleika boðið heppnaðist mjög vel.

Starfið komst loks í réttar horfur á árinu eftir talsverðar truflanir sökum heimsfaraldursins. Kynningarbæklingur um félagsstarfið kom út í marsmánuði og var dreift í öll hús á starfsvæðinu. Hann er einnig aðgengilegur á heimasíðu félagsins.https://www.krabbsigurvon.is/?page_id=109

Þá hittist stuðningshópurinn Vinir í von nokkuð reglulega yfir vetrartímann en um er að ræða samverustundir krabbameinsgreindra og aðstandenda þeirra. Vaninn hefur verið að haldnir séu hittingar á hálfsmánaðar fresti hvern vetur en það hliðraðist nokkuð til á meðan Covid-faraldurinn var sem mest ógnandi til að vernda þennan viðkvæma hóp.

Hápunktur ársins var svo án efa bleikt boð í október en vegna þess að félagið hafði þurft að fresta afmælisfögnuði af sóttvarnarástæðum árið áður til að fagna 20 ára endurreisnarafmæli Sigurvonar var ákveðið að leggja extra vel í októberboðið. Um 70 manns sóttu boðið og Hjördís Þráinsdóttir flutti magnaða reynslusögu sína af illvígu krabbameini sem hún náði að vinna bug á. Svanhildur Garðarsdóttir, Dagný Hermannsdóttir og Guðmundur Hjaltason fluttu svo tónlistaratriði. Veislukokkarnir Elín og Hugljúf Ólafsdætur bættu í hóp þeirra sem hafa matarást á þeim systrum með því að reiða fram dýrindisveitingar. Veislustjórarnir Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson fóru á kostum og uppskáru ófá hlátrasköll úr salnum. Nýttu þeir tækifærið til að koma fram þökkum til ísfirsks samfélags fyrir góðar móttökur eftir að þeir fluttu vestur og luku kvöldinu á fjöldasöng.

Hlaupahópur Sigurvonar var í fullu fjöri yfir sumartímann en boðið er upp á skipulagðar hlaupaæfingar þátttakendum að kostnaðarlausu. Það hefur verið árviss liður í starfi félagsins frá sumrinu 2019 og hefur tekist vel þrátt fyrir að Covid hafi dregið úr þátttöku er leið á sumarið bæði 2020 og 2021. Fín mæting var í sumar og tóku nokkrir þátttakendur hópsins þátt í Reykjavíkurmaraþoninu ar sem þeir hlupu í þágu Sigurvonar. Markmiðið er bæði að stuðla að auknu hreysti félagsmanna og vekja í leið athygli á félaginu.

Brot af hressum hlaupahópi Sigurvonar.

 


Þá var Hraðfrystihúsinu-Gunnvör veitt heiðursslaufa félagsins það árið til að þakka fyrir dyggilegan fjárstuðning til fjölda ára.
Sigurvon hlaut að vanda marga góða styrki sem gera félaginu kleift að styðja fjárhagslega við félagsmenn sína, til að standa m.a. straum af gistikostnaði, sem annars myndi gera róðurinn enn þyngri er hann bætist ofan á læknis- og rannsóknakostnað. Má þar nefna sem dæmi að æfingahópurinn Karlahreysti veitti félaginu styrk í nafni vinar síns Samúels Einarssonar.

 

Piltar í Handknattsdeild Harðar á Ísafirði leituðu til Sigurvonar með samstarf í haust um að selja styrktartreyjur bleiku slaufunnar og Sigurvonar. Óhætt er að segja að framtakið hafi vakið mikla lukku – bæði þurfti að panta fleiri treyjur vegna eftirsóknar og vakti sala þeirra athygli bæði á félaginu og bleiku slaufunni.Einnig var leitað til félagsins með samstarf vegna bandarísku sýningarinnar The Pink Hulk sem sýnd var á einleikjahátíðinni Act alone á Suðureyri í ágúst. Valerie David lýsir þar eigin reynslu af því að hafa glímt í tvígang við eitilæxli og einu sinni brjóstakrabbamein. Sýndi hún starfi Sigurvonar mikinn áhuga og fékk aðstandendur félagsins til að standa fyrir spjalli eftir sýninguna. Þar var haldin smá kynning á starfi Sigurvonar og sýningargestir spurt Valerie um hennar eigin baráttu. Vel heppnað samtarf og hefur Valerie lýst yfir áhuga sínum að koma til landsins aftur og sýna einleikinn á ný í samstarfi við krabbameinsfélög.