Ísfirðingnum Þráni Ágústi Arnaldssyni var veitt önnur af tveimur heiðursslaufum Sigurvonar í bleikum október. Var það gert í þakklætisskyni fyrir frábært framtak þar sem hann og liðsfélagar hans í handboltadeild Harðar framleiddu bleika styrktartreyju í þágu Sigurvonar og bleiku slaufunnar og seldu í október í fyrra. Þá léku þeir einnig í bleikum treyjum þann mánuð í Olís-deild karla en það var í fyrsta sinn sem Harðverjar léku í deildinni.
„Mig langar að þakka Sigurvon kærlega fyrir þann heiður að veita mér Heiðursslaufu Sigurvonar. Þetta bleika treyjuverkefni byrjaði þannig að ég og Stefán Már félagi minn vorum að reyna að finna hugmyndir að fjáröflunum fyrir Hörð handbolta, þegar þessi hugmynd að selja bleikar treyjur til styrktar Sigurvon og Bleiku slaufunni kom upp. Við Stefán Már, sem á jafn mikinn heiður af þessu verkefni og ég, hönnuðum þó nokkrar útgáfur af treyjunni þar til við vorum sáttir með útlitið. Við bárum þessa hugmynd svo upp við þau í Sigurvon og voru þau til í að koma með okkur í þetta verkefni. Verkefnið gekk vel fyrir sig og erum við Stefán afar stoltir af því, sem og þakklátir fyrir alla þá sem keyptu sér treyju. Aðal ástæðan fyrir þessari hugmynd og þessu verkefni var tenging okkar Stefáns við fjölskyldumeðlimi sem höfðu greinst með krabbamein. Mín tenging er að hún mamma mín (Hjördís Þráinsdóttir) sem ég þori að segja að margir, ef ekki flestir fyrir vestan viti hver er, greindist með brjóstakrabbamein rétt fyrir Covid-19 eða í janúar 2020 svo það er rétt hægt að ímynda sér hversu erfitt þetta var fyrir hana sem og marga í fjölskyldunni. Í dag er mamma krabbameinslaus og hefur aldrei verið sterkari og er ég stoltur að geta kallað hana mömmu mína. Það eru nokkrir dagar eftir af bleikum október og hvet ég alla að kaupa Bleiku slaufuna, annan varning eða hreinlega styrkja beint, hvort sem það er til minni krabbameinsfélaga eins og Sigurvonar eða í málstað Bleiku slaufunnar. Svo má auðvitað alltaf styrkja þó það sé ekki bleikur október, t.d. með því að skrá sig í Sigurvon eða gerast velunnari Krabbameinsfélagsins. Takk fyrir mig Sigurvon.“
Stjórn Sigurvonar þakkar Þráni kærlega fyrir sitt framlag á móti og óskar honum góðs gengis í framtíðinni.
Sigurvon nýtur alltaf góðs af hlýhug og velvilja Vestfirðinga en undanfarið ár hefur stuðningurinn verið extra dyggilegir. Ákvað því stjórnin að veita tvær heiðursslaufur í ár til að reyna sýna hversu þakklát og meyr hún er yfir stuðningnum. Verður seinni heiðursslaufan afhend annað kvöld og greint frá því hér á heimasíðunni á föstudag.