Freyja og Hlaupahópur Öllu fá heiðursslaufu

Martha Kristín Pálmadóttir afhenti Óskari Torfasyni og Guðbjörgu Hauksdóttur heiðursslaufu Sigurvonar.

Freyju Óskarsdóttur og Hlaupahópi Öllu var veitt seinni heiðursslaufa Sigurvonar í ár. Foreldrum Freyju og Aðalbjargar (Öllu), þeim Óskari Torfasyni og Guðbjörgu Hauksdóttur, var afhent slaufan með viðhöfn á svæðisfundi stjórnar félagsins á Café Riis á Hólmavík í gærkvöldi. Óskar skýrði frá því að að það hafi verið að ósk Öllu að Sigurvon yrði fyrir valinu þegar þær systur voru að ræða stofnun hlaupahóps í hennar nafni á líknardeildinni en Alla lést í mars sl. eftir stutta baráttu við ristilskrabbamein. Að sögn Óskars vildi hún velja félag sem hún vissi að væri að gera góða hluti fyrir fólkið í sinni heimabyggð en hún bjó á Drangsnesi á Ströndum og var félagsmaður Sigurvonar. Freyja virti þá ósk og setti á stofnun fjölmennan hlaupahóp sem safnaði áheitum fyrir Sigurvon og söfnuðust næstum 3,5 milljónir króna.

 

Freyja var erlendis og gat því ekki veitt heiðurslaufunni viðtöku en þótti það vel við hæfi að foreldrar þeirra Öllu tækju við henni fyrir hönd hennar og hlaupahópsins.

 

 

Fundurinn með Strandamönnum þótti afar vel heppnaður. Komu fram margir gagnlegir punktar um hvernig efla mætti starfið á svæðinu en Strandir hafa tilheyrt starfsvæði félagsins frá því að Krabbameinsfélag Strandasýslu sameinaðist Sigurvon vorið 2004. Sérstakar þakkir fær starfsfólkið á Café Riis sem bauð upp á veitingar og tók höfðinglega á móti fundargestum.

Freyja Óskarsdóttir að loknu Reykjavíkurmaraþoninu í ágúst.
Hlaupahópur Öllu vakti mikla athygli í maraþoninu – bæði þeir sem voru að hlaupa og eins klappliðið sem hvatti alla til dáða.