Hátt í 20 manns ætla að hlaupa í þágu krabbameinsfélagsins Sigurvonar í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 24. ágúst. Um afar mikilvæga fjáröflun er að ræða fyrir félagið en nú þegar hefur safnast yfir hálf milljón króna. Sá peningur sem safnast í maraþoninu rennur óskertur til eins af mikilvægustu markmiðum Sigurvonar sem er að styðja fjárhagslega við einstaklinga sem glíma við krabbamein. Fjárhagsleg byrði þeirra sem veikjast er mikil og þá ekki síst þeirra sem búa á landsbyggðinni. Því er mikilvægt að svæðisfélag eins og Sigurvon geti ræktað hlutverk sitt af alúð, með dyggri aðstoð samborgaranna.
„Maður verður meyr ár hvert að sjá hversu margir eru til í að leggja félaginu lið í maraþoninu. Við hvetjum alla sem eru aflögufærir til að styðja við hlauparana okkar með því að heita á þá. Margt smátt gerir eitt stórt,“ segir Thelma Hjaltadóttir, starfsmaður félagsins.
Þá hefur félagið staðið fyrir fríum æfingum í sumar fyrir bæði þá sem vilja hlaupa í Reykjavíkurmaraþoninu og þá sem auka vilja hreysti sína í góðum félagsskap. Síðasta æfingin fer fram á morgun og sem fyrr eru allir velkomnir. Lagt er af stað frá Torfnesi á Ísafirði kl. kl. 16:15.