Rúmlega 1,2 milljón söfnuðust fyrir Sigurvon

Rúmlega 1,2 milljón króna söfnuðust í áheitasöfnun fyrir Sigurvon í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka á dögunum. Alls bárust 235 áheit á þá sem hlupu í þágu félagsins. „Við hjá Krabbameinsfélaginu Sigurvon erum ótrúlega þakklát fyrir framtak þeirra sem hlaupa til styrktar félaginu í Reykjavíkurmaraþoninu. Þau lyfta grettistaki fyrir samfélagið okkar,“ segir Martha Kristín Pálmadóttir, formaður Sigurvonar.

Þar sem eitt af mikilvægustu markmiðum Sigurvonar er að styðja fjárhagslega við einstaklinga sem glíma við krabbamein munar mikið um slíkan fjárstuðning. Starfsvæði félagsins nær yfir alla Vestfirði og megintilgangur þess að styðja í hvívetna baráttuna gegn krabbameini.

 

Systkinin Freyja og Hafþór hlupu í minningu systur sinnar í Hlaupahópnum hennar Öllu.

 

Ívan Breki Guðmundsson var einn af mörgum hlaupurum sem hlupu í þágu Sigurvonar.
Feðginin Árni Ívarsson og Snæfríður Lillý Árnadóttir smökkuðu medalíuna að hlaupi loknu.
Sumir voru betur klæddir fyrir hlaup en aðrir. Darth Vader mætti í fullum skrúða og hljóp ásamt fleiri félögum úr Star Wars fyrir krabbameinsdeild barna.