Húsfyllir var í bleiku boði Sigurvonar í Edinborgarhúsinu á Ísafirði á fimmtudagskvöld. Boðið var upp á tónlistaratriði, bingó og ljúfar veitingar en með boðinu vilja aðstandendur Sigurvonar þakka samfélaginu fyrir stuðning við félagið. Einn af hápunktunum var þegar Ólafur Guðsteinn Kristjánsson flutti ávarp reynslu sína af því að vera foreldri stúlku sem greindist með hvítblæði tveggja ára. „Lífið er stutt og dauðinn er ólæknanlegur. Það sem maður taldi bráðnauðsynlegt er það kannski ekki. Að standa frammi fyrir viðlíka þraut breytir lífssýn manns, eða ætti að gera það.“
Hann sagði hlýhug og góðsemi nærsamfélagsins hafa skipt sköpum við þessa erfiðu lífsreynslu sem hann og fjölskyldan hans stóðu frammi fyrir. Stefnt er að því að stúlkan ljúki meðferð nú í nóvember en greindist 1. október 2022. Reynslusagan lét engan ósnortinn og hlaut Ólafur standandi lófaklapp að henni lokinni.
Haukur Magnússon var veislustjóri og fékk alla í salnum til að hlæja og taka þátt. Systurnar Huglúf og Elín Ólafsdætur sáu um veitingarnar og formaður Sigurvonar og gjaldkeri, þau Martha Kristín Pálmadóttir og Fjölnir Ásbjörnsson, tóku lagið. Dagskráin var svo tæmd eftir að Guðrún Sigríður Matthíasdóttir sá um bingó af sinni alkunnu snilld. Veglegir vinningar voru í boði Snyrtistofunnar Lenu, Húsinu, Jón og Gunnu, Smiðjunni, Þristi, Hamraborg og myndlistarkonunni Ólöfu Dómhildi.